Heimaæfingar og aðstaða

Til að tryggja ánægju og árangur í tónlistarnámi þarf að leggja sig fram við að æfa sig heima, án þess verða engar framfarir. Nemendur í Suzukiskóla Sigrúnar æfa sig heima á hverjum degi. Það er mjög mikilvægt að búa til góðar venjur frá upphafi náms. Þannig verður þetta partur af daglegri rútínu, rétt eins og að tannbursta sig fyrir svefninn.

Við leggjum mikla áherslu á gæði heimaæfingarinnar, frekar en lengd. Nemendum er sett fyrir ákveðin atriði sem þeir eiga að æfa heima og við leggjum áherslu á að þegar verið er að æfa heima sé einbeitingin og meðvitundin til staðar. 

Að sama skapi þarf nemandi að hafa svigrúm til að leika sér með hljóðfærið, þ.e. prófa að spila eitthvað bull, spinna (improvise) og spila gömul lög. Það er líka partur af lærdómsferlinu.

Mjög mikilvægt er að nemandinn hafi góða aðstöðu til að æfa sig heima. Píanónemendur þurfa að hafa píanó á heimilinu. Fiðlunemendum bendum við á að gott er að hafa einhvern ákveðinn stað í húsinu sem æfingastað. Þar getur mottan átt heima (þessi með áteiknuðu fótsporunum fyrir yngri nemendur) og nótnastatíf. Mörgum finnst gott að hafa fiðlukassann í hillu sem getur verið opinn, þá er auðveldara að grípa í hljóðfærið. Eins er hægt að geyma fiðluna á þar til gerðum fiðlustandi

Þar sem hlustun er gríðarlega mikilvægur þáttur í Suzuki námi þarf nemandi að hafa gott aðgengi að Suzuki upptökunum. Geisladiskur fylgir bókinni, en einnig er hægt að nálgast tónlistina stafrænt. Það þarf að vera góður hátalari eða geislaspilari á heimilinu svo hægt sé að hlusta og spila með. Það er einnig á ábyrgð foreldra að finna stundir til að setja tónlistina "á fóninn", hvort sem það sé í bílnum, rétt fyrir svefninn, á leið í skólann o.s.frv.