Hljóðfæri

Píanónemendur þurfa að hafa píanó á heimilinu og geta æft sig daglega. Píanó fást í Tónastöðinni og Hljóðfærahúsinu, stundum er hægt að finna píanó til sölu á bland.is og á þessari grúppu á facebook. 

Fiðlunemendur

Fiðlubyrjendur fá lánað fiðrildi frá skólanum til að byrja með. Allir nemendur skólans spila á sína eigin fiðlu. Hægt er að kaupa nýjar fiðlur á Íslandi í Tónastöðinni og Hljóðfærahúsinu. Einnig er hægt að kaupa notaðar fiðlur víða, t.d. á bland.is og á ýmsum sölusíðum á facebook, t.d. þessari eða þessari hér. 

Við mælum með Stentor fiðlum, þær fást í Tónastöðinni og á netinu.

Suzuki Strings er írsk síða sem selur fiðlur, nótur og ýmislegt Suzuki tengt, þau senda til Íslands.

Verslunin Thomann.de sendir til Íslands, þar er hægt að kaupa fiðlur á góðu verði (athugið þó að það bætist við sendingakostnaður og tollur.)

Í lang flestum tilfellum fylgir bogi með í réttri stærð. Athugið þó að bogahárin séu ný og hrein. Ef þau eru óhrein þarf að skipta um hár, þá skal hafa samband við Jón Marinó fiðlusimið.

Ef vel er farið með fiðluna er hægt að selja hana áfram þegar þarf að skipta í stærri fiðlu.

 

Fiðlur koma í mismunandi stærðum og það fer eftir aldri, stærð barns og lengd handa hvaða fiðla hentar. Stærð og gerð fiðlu er valin í sameiningu með kennara, en hægt er að miða við eftirfarandi töflu þótt hún sé alls ekki nákvæm: 

3ja ára        1/32 stærð 
3ja-5 ára     1/16 stærð

4-5 ára        1/10 stærð

4-6 ára        1/8 stærð

5-7 ára        1/4 stærð

7-9 ára        1/2 stærð

9-12 ára      3/4 stærð
12 ára +     4/4 stærð (full stærð).

Umhirða fiðlunnar og bogans

 • Geymið fiðluna í góðum og öruggum fiðlukassa.

 • Þvoið ykkur um hendurnar áður en þið byrjið að spila og klippið neglurnar. 

 • Settu reglulega myrru á bogahárin.

 • Eftir að spilað hefur verið á fiðluna, strjúkið yfir hljóðfærið með mjúkum klút og fjarlægið myrru af hljóðfærinu. Einnig er gott að strjúka yfir bogastöngina ef það er myrra þar.

 • Áður en leikið er með boganum skal strekkja varlega á hárunum með því að snúa skrúfunni. Gætið þess að strekkja ekki of mikið á hárunum. 

 • Losið um bogahárin þegar búið að er að spila. 

 • Snertið ekki bogahárin, þá kemur í þau fita frá höndunum okkar sem eyðileggur gripið.

 • Takið axlarpúðann af fiðlunni áður en hún er sett í fiðlukassann.

 • Gætið þess að kassinn sé vel lokaður áður en hann er tekinn upp. 

 • Geymið mjúkan klút yfir hljóðfærinu í kassanum. 

 • Fiðlan þolir illa snöggar hitabreytingar, þá gæti komið sprunga í viðinn. Ekki geyma fiðluna inni í köldum bíl eða láta sól skína á hana, þó hún sé í fiðlukassa.

 • Ef ferðast er með hljóðfæri, takið það alltaf með í handfarangur og gætið þess að það verði ekki fyrir hnjaski.

 • Ef eitthvað kemur uppá, hafið strax samband við fiðlukennara og/eða komið fiðlunni til fiðlusmiðs.